Ljósið í myrkrinu

Ingibjörg Eyþórsdóttir

Í janúarlok ár hvert, þyrpist áhugafólk um nýja íslenska tónlist í Hörpu og situr þar hverja tónleikana á fætur öðrum, sperrir eyrum og meðtekur margs konar tónlist sem fellur undir þessa skilgreiningu. Þar er yfirleitt bæði að finna nýjustu straumana og eldri verk íslenskra tónskálda og stundum gefur líka að heyra verk eftir erlenda gesti.

Myrkir músíkdagar – nafnið gefur til kynna hverjir eru upphafsmennirnir að þeim. Það bendir til jafnaldranna Þorkels Sigurbjörnssonar og Atla Heimis Sveinssonar, sem eiga örugglega metið í snjöllum nafngiftum. Hátíðin var fyrst haldin árið 1980, en þá voru þeir báðir í stjórn Tónskáldafélags Íslands enda er hátíðin haldin af Tónskáldafélaginu og skipulögð af því. Hátíðin hefur skapað sér stóran sess í íslensku tónlistarlífi, er með elstu tónlistarhátíðum, hefur skapað sér virðingarsess og vekur athygli langt út fyrir landsteinana.

Að þessu sinni fór hátíðin fram dagana 28.– 30. janúar og fór næstum öll fram í Hörpu. Tilhneiging er til að þjappa hátíðinni æ meira saman. Hér áður dreifðist hún á fleiri daga – sem helgaðist sennilega af því að fólk þurfi að komast jafnvel bæjarenda á milli en eftir að Harpa varð aðalvettvangur hátíðarinnar hefur hún yfirleitt náð yfir fjóra daga, frá fimmtudegi til sunnudagseftirmiðdags og útverðirnir verið tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldi og tónleikar Kammersveitarinnar á sunnudagseftirmiðdegi. Nú spannaði hún þrjá daga, og hófst á hálfgerðum upptakti að tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar, með tónleikum kammerhópsins Elektru en tónleikar Kammersveitarinnar voru færðir á laugardagskvöldið – og því þéttni atburða nú enn meiri en áður, því á sama tíma og hátíðin styttist, var slegið met í fjölda viðburða – mér telst til að þeir hafi verið 23 nú á þessu ári, eða einum fleiri en í fyrra. Tveir þeirra voru reyndar innsetningar sem hægt að heimsækja í rólegheitum þegar færi gafst, sem var skemmtileg viðbót. 23 tónlistaratburðir á þremur dögum gerir það náttúrlega að verkum að erfitt er fyrir flest fólk að ná að mæta á alla tónleikana – og því komið að því að gestir velji úr það sem þeim þykir áhugaverðast og taki sér hlé inn á milli. Enda var tónlistin mjög fjölbreytt, fyrir börn og fullorðna, hundrað ára gömul verk og verk samin á allra síðustu dögum; einleikstónleikar, raftónleikar, kammertónleikar og fullskipuð Sinfóníuhljómsveit og allt þar á milli. Ekki skal lagt á það mat hér hvort þetta fyrirkomulag er gott eða slæmt, fleiri atburðir á styttri tíma gerir það helst að verkum að færri komast yfir að sækja alla atburði, en aukin aðsókn vegur á móti því – því án þess að hafa beinar tölur til viðmiðunar, virðist undirritaðri að hátíðin hafi verið betur sótt en áður, og raunar hafi aðsóknin farið vaxandi frá ári til árs.

Form hátíðarinnar er í nokkuð föstum skorðum. Á fimmtudagskvöldi voru tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Caput var með tónleika daginn eftir og þá um kvöldið var rafsenan með tónleika – sem lengi hefur verið fastur liður. Hinn glæsilegi kammerhópur Nordic Affect hefur verið með tónleika á laugardagseftirmiðdegi í nokkur skipti og svo var einnig nú. Kammersveit Reykjavíkur lauk svo hátíðinni nú eins og svo oft áður. Það sem var nýtt var helst það að engin verk fyrir stærri kammersveit voru flutt nú,  en þeim mun fleiri fyrir minni kammerhópa. Þannig voru bæði tónleikar Caput og Kammersveitar Reykjavíkur nú með því sniði að færri hljóðfæraleikarar voru á sviðinu en oft áður. Það gerir ekkert til, því sveigjanleiki og fjölbreytni er það sem gildir þegar tónlistin er tekin með viðlíka trompi og hér. Yfirleitt leið klukkutími milli þess að tónleikar hæfust og stundum var einum ekki lokið þegar þeir næstu hófust. Þá var annað hvort að grípa til þess ráðs að koma of seint – og missa þá af fyrsta verkinu eða jafnvel því næsta líka, eða setjast niður og slaka á yfir einum kaffibolla – eða hvítvínsglasi á hátíðarbarnum – og bíða eftir þeim næstu. Undirrituð hefur verið dyggur gestur á hátíðinni undanfarin ár og reynt að sækja sem flesta viðburði, án þess að hafa endilega stefnt að því að gera henni tæmandi skil. Að þessu sinni verður valin sú leið að fjalla misýtarlega um tíu tónleika hátíðarinnar.

Upphaf hátíðarinnar

Hátíðin hófst á einstaklega skemmtilegum Errata og Elektru-kammerhópsins. Errata er hópur fjögurra tónskálda sem öll voru við nám í Listaháskólanum á svipuðum tíma. Þetta eru þau Bára Gísladóttir, Finnur Karlsson, Halldór Smárason, og Peter Ekman. Elísabet Einarsdóttir sópransöngkona sem fram kom á tónleikunum var einnig við nám í Listaháskólanum, þeim samtíða. Hún er iðin við að syngja nýja tónlist enda virðist hún hafa frábært eyra, sem er bráðnauðsynlegt þegar sungin er atónal tónlist. Elektru mynda fimm kjarnakonur, þær Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari, Helga Björg Arnardóttir klarinettuleikari, Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðluleikari og Margrét Árnadóttir sellóleikari. Elísabet er frábær sópransöngkona, með mikla sviðsnærveru og leikhæfileika sem nutu sín vel, og sértaklega í síðasta stykkinu – og eiga örugglega eftir að fleyta henni langt.

Öll tónverkin voru skemmtileg og áheyrileg. Í verkinu Vegfarendur og ég eftir Halldór Smárason var myndskeið hluti verksins, tekið á horni Hringbrautar og Framnesvegar í Reykjavík. Verkið tengist eldra verki Halldórs sem var flutt á Myrkum músíkdögum árið 2012. Tónleikagestir horfa á bíla og aðra vegfarendur ýmist stoppa á rauðu ljósi eða halda áfram, á meðan skyggir hægt og rólega. Þetta var einstaklega sefjandi og róandi. Elísabet fór með slökunartexta í upphafi sem breytist hægt og rólega í hugleiðingar og vangaveltur slökunina. Tónlistin var einnig róandi, hæg og yfirveguð, en á einhvern hátt líka spennumyndandi, þannig að örlítil spenna myndaðist milli tónlistarinnar og myndarinnar. Andardráttur og rödd söngkonunnar leiddi áheyrandann inn í andrúmsloft myndskeiðsins á sama tíma og samlagaðist tónlistinni hægt og bítandi, hætti að lesa upp slökunartextann og tók þátt í tónvefnum. Þetta var mjög sefjandi, næstum svæfandi þrátt fyrir undirliggjandi spennu, myndin og rödd Elísabetar og gott svona í upphafi hátíðarinnar að hrista af sér hversdagsstreituna. Næst var verkið Ni(ur) eftir Báru Gísladóttur. Verkið er við texta úr ljóðinu Haustið nálgast eftir Stefán frá Hvítadal, undir áhrifum þokukenndra rauðleitra haustnátta. Nafnið vísar í ýmsar merkingar orðsins, niður, ymur og stöðu tunglsins; nið, sem þýðir minnkandi tungl.  Hér kom hæð raddar Elísabetar vel í ljós – og líka það að textameðferð í slíkri hæð er vonlaus. Því hefði verið til bóta að fá textann prentaðan í efnisskrá, en kannski var hann allt eins hugsaður sem effekt. Verkið er ljóðrænt og fallegt eins og hæfir ljóðinu og röddin mjög miðlæg. Yfirtónar í hljóðfærunum voru einn helsti efniviður verksins og Ástríður Alda sýndi líka að píanóleikur með kökuspaða gefur fallegan, mildan tón. Verkið var milt og mjög fallegt áheyrnar. Þriðja verkið á tónleikum Errata og Elektru var Stjórn eftir Finn Karlsson. Það er sérstaklega skrifað fyrir Elísabetu Einarsdóttur og Elektru, eða Pierrot-hóp, sem er einmitt þessi sama hljóðfærasamsetning. Verkið samanstendur úr mörgum stuttum brotum, söngkonan gekk um og sló inn og stjórnaði hópnum, hún réð hvenær spilað var og hversu hátt og gaf ýmis fyrirmæli. Skemmtilegt og mikill leikur í þessu verki. Síðasta verk tónleikana var lítil ópera fyrir einn söngvara, Gos, þar sem ung kona á leið á ráðstefnu er gosteppt á flugvelli og öllu flugi aflýst. Hér gefur að heyra rytmíska tilvísun í Vorblótið, eða svipaða takta, og það rifjaðist upp að í Fantasíu, frægri teiknimynd sem gerð var útfrá ýmsum þekktum klassískum tónlistarbrotum, að við Vorblótið var einmitt eldgos. Ungan konan syngur eins konar resitatív og á meðan hún bíður kvartar hún undan svengd, en fer svo að rýna í fyrirlesturinn sem ætlar að flytja á ráðstefnunnar sem hún er á leið á, þar sem fjallað er um önnur eldgos og meiri svengd. Hún ætlar sem sagt að ræða um Móðuharðindi, nefnir ártalið 1783, fjárfelli og mannfelli en nær ekki sjálf að tengja þetta tvennt saman. Samt endar hún á – í þjóðlegum stíl – að leggja sér bók til munns sem hún hafði meðferðis. Andstæða sönglesins og textans varð fyndin, en verkið hafði líka mikin brodd. Elísabet sýndi í þessu verki að hér er á ferð efni í óperustjörnu. Skemmtileg byrjun á Myrkum músíkdögum!

Sinfóníutónleikar

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru frumfluttir tveir konsertar og auk þess tvö eldri hljómsveitarverk. Konsertarnir voru flautukonsertinn Gullský eftir Áskel Másson þar sem Melkorka Ólafsdóttir var einleikari og Konsert fyrir píanó og hljómsveit eftir Þórð Magnússon, þar sem Víkingur Heiðar Ólafsson var í einleikshlutverkinu. Stjórnandi var Daníel Bjarnason. Í Gullskýi var samspil flautu og hörpu í scordatura-stillingu stór hluti verksins og skapaði upphafið og ójarðneskt yfirbragð, eins og hæfir gullskýinu sem var kveikja verksins. Áskell notaði auk þess mikið svokallaða náttúrutóna, yfirtóna og flaututóna, og þeir ásamt krómatík, kvarttónastillingu hörpunnar og strengjasveitarinnar, og notkunar á björtum málmgjöllum, hjálpuðu til við að skapa ójarðneska stemningu. Milt og bjart verk eins og hæfir nafninu.

Hitt verkið sem var frumflutt á tónleikunum var píanókonsert eftir Þórð Magnússon. Píanókonsertinn er saminn um stef sem er að finna á Silfurplötum Iðunnar, en Þórður hefur gjarnan notað stefjabrot þaðan eða lög úr handritum og spunnið tónsmíðar sínar í kringum þau. Hér er það stefið Meðan hringinn hönd þín ber, sem sveimar í gegnum allan konsertinn og er tónefni hans byggt á skala sem fenginn er úr stefinu, sem er í raun D-dúr þótt það spanni hann ekki allan. Brot úr stefinu eru vel heyranleg í gegnum allt verkið en birtist loks fullskapað í upphafi þriðja þáttar, beint af silfurplötunni eins og draugur úr fortíðinni – í flutningi níu ára gamals drengs. Það var skemmtileg viðbót og var tilefni til endurlits yfir það sem þegar var komið fram í verkinu. En annað byggingarefni var þarna líka heyranlegt. Stundum var eins og stórir og breiðir hljómar Rachmaninoffs létu á sér kræla og síðrómantík fyrstu áratuga 20. aldarinnar sveif oft yfir vötnum. Fleiri Rússar frá sama skeiði voru fyrirferðarmiklir í konsertinum, til dæmis Prokofiev og Vorblót Stravinskís var greinilega í huga tónskáldsins, enda notaði Stravinskí rússnesk og úkraínsk þjóðlagabrot í það og fleiri verk. Þetta var því á köflum eins og metakonsert um píanótónlist síðrómantíkurinnar. Gershwin og rapsódía hans fyrir píanó gægðist fram undir lok fyrsta þáttar í allt að því djasslegri kadensu. Þrástef annars kaflans var byggt upp á stórri tvíund, þar sem breytileikinn bjó í rytmanum, og var bein vísun í lagbrotið, sem steig síðan fram í fullri lengd í þriðja kafla.

Strati, verk Hauks Tómassonar frá 1993 er samið fyrir stóra sinfóníuhljómsveit, og efri hluti hljómborðs píanósins er mjög ráðandi í verkinu – á móti selestu, slagverki, klarinettu og flautum og öðrum hljóðfærum sem geta gefið hvellan og bjartan tón, sem er mjög áberandi í þessu verki – og jafnvel mátti heyra spretti sem minntu á hið fræga verk Turangalila eftir Messiaen – sem hefur haft ómæld árif frá því það var frumflutt. Strati er verk sem hefur mjög vel staðist tímans tönn og er jafn ferskt og glæsilegt og við frumflutninginn fyrir 23 árum. Það eru ekki öll verk síðari tíma sem maður fær tækifæri til að heyra oftar en einu sinni á tónleikum en þetta var í þriðja sinn sem Strati var flutt af Sinfóníuhljómsveitinni – og verður að segjast að Strati var að dómi undirritaðrar sterkasta verk tónleikanna. Act, eftir Norðmanninn Rolf Wallin, síðasta verkið á tónleikunum átti að sýna mikilvægi samvinnu hljómsveitar, sem fer frá átökum og óreiðu til einradda línu í lokin – en í þessu verki voru átökin mun áhugaverðari en hin einradda niðurstaða verksins.

Stjarna þessara tónleika var óneitanlega stjórnandinn, Daníel Bjarnason, sem vex með hverju verkefni. Hann er nú þegar orðinn mjög öruggur og áhugaverður stjórnandi sem á vonandi eftir að standa oft á stjórnendapallinum í Eldborg í framtíðinni – og öðrum sambærilegum pöllum í veröldinni.

Fernir einleikstónleikar

Nokkuð margir tónleikar hátíðarinnar að þessu sinni voru sólóstónleikar. Þar voru fimm hefðbundnir einleikstónleikar, einir sem voru hálfgert leikhús og tvær innsetningar gerðar ef einstaklingum. Píanótónleikar Eddu Erlendsdóttur voru í Norðurljósasalnum klukkan sex á föstudeginum. Yfirskrift tónleikanna var Frakkland Ísland 1915–2015, þeir voru einn þáttur í fransk-íslensku þema á hátíðinni, sem þó var ekki mjög fyrirferðarmikið. Edda hefur búið og starfað í París um árabil og tónlistin sem hún flutti var eftir íslenska og franska höfunda, tímabilið sem gefið er til kynna í yfirskriftinni er algerlega á ábyrgð Frakkanna. Edda flutti sex verk, fyrsta verkið var Majka eftir Tómas Manoury – og var það frumflutningur verksins, en Tómas er sonur Eddu og sameinaði þannig þessar tvær þjóðir. Þetta var áheyrilegt verk þar sem Tómas samplaði píanótóna í upphafi verksins og sendi í gegnum tölvu, og lék síðan með píanóinu út verkið. Þá var Plainte calme, prelúdía eftir Olivier Messiaen, síðan Þrjár etýður eftir Claude Debussy, þar á eftir Innstirni eftir Úlf Hansson – sem líka var frumflutt á tónleikunum, svo Fimm stykki fyrir píanó eftir Hafliða Hallgrímsson og að lokum Þrjár prelúdíur eftir Henri Dutilleux (fæddur 1916) – einnig frumflutningur á Íslandi. Það var áhugavert hvernig verk Úlfs, samdi sig að franskri tónlist frá fyrri hluta 20. aldar og hinum innhverfa tón hennar. Debussy sveif þar yfir vötnum í gleiðum og minnkuðum hljómum. Tónleikarnir voru fallegir og áheyrilegir – en samt verður að segjast að svolítið virðist skjóta skökku við að sitja og hlusta á þá Debussy, Messiaen og Dutilleux á tónleikum á Myrkum músíkdögum, sem snúast yfirlýst um nýja tónlist. Tónleikarnir voru fremur langir, þannig að einleikstónleikar Kristínar Mjallar Jakobsdóttur fagottleikara, sem hófust klukkan sjö urðu hálf snubbóttir fyrir undirritaða, og marga fleiri. Hún flutti fimm verk, og þrjú þeirra hefur hún gefið út á geisladiski sem kom út 29. janúar. Fyrst var Fönsun IV eftir Atla Heimi Sveinsson, sem var búið þegar fjöldi gesta kom steðjandi að, þá frumflutti Kristín Mjöll verkið Viscosity #1 eftir Bergrúnu Snæbjörnsdóttur, síðan var verk Önnu Þorvaldsdóttur, Hugleiðing. Því næst seinni frumflutningur tónleikanna, verki Elínar Gunnlaugsdóttur, tuldur (muldur, mas, þras). Að lokum flutti Kristín Mjöll verk eftir Hafdísi Bjarnadóttur, Já! Öll verkin snerust að einhverju leyti um könnun á  hljóðfærinu, klappahljóð, og önnur merkileg hljóð sem fagottið býr yfir – eins og raunar er algengt með verk nú um stundir. Þetta bætir auðvitað miklu við hina hefðbundnu notkun hljóðfæranna sem er mjög kærkomið. Og Kristín Mjöll, sem er afburðahljóðfæraleikari, á hrós skilið fyrir spennandi tónleika.

Þriðju einleikstónleikarnir sem sóttir voru af undirritaðri, voru einu tónleikarnir sem fóru fram utan Hörpu. Þetta voru orgeltónleikar í Dómkirkjunni í Reykjavík, þar sem Guðný Einarsdóttir organisti flutti öll orgelverk Jóns Nordals, fimm að tölu. Jón verður níræður nú í mars á þessu ári og tónleikarnir voru honum til heiðurs. Verkin sem flutt voru eru samin á löngu tímabili og það var gaman að heyra þróun á tónsmíðastíl Jóns í gengum þessi verk. Fyrst flutti Guðný sálmaforleikinn Kær Jesú Kristí frá árinu 1945, en þá var Jón 19 ára. Öll verkin tengjast Dómkirkjunni með einhverjum hætti. Jón gaf Páli Ísólfssyni þetta verk, en hann var þá dómorganisti. Hér eru greinileg áhrif frá sálmaforleikjum Johans Sebastian Bachs, og óvenju mikill kontrapunktur miðað við það sem á eftir kom í tónsmíðasögu Jóns. Páll Ísólfsson pantaði næsta verk af Jóni, en það er Fantasía, frá árinu 1954, þegar Jón var enn leitandi, og verkið ber það með sér. Með Sálmaforleik um sálm sem aldrei var sunginn,  sem Jón samdi fyrir Ragnar Björnsson þáverandi dómorganista er áhugavert að heyra að tónmál hans er að verða persónulegra. Það verk og Tokkata sem samdi svo árið 1985 eru mun þekktari en hin orgelverkin eftir Jón. Það er samið af miklu öryggi og  tónmál Jóns er orðið skýrt og mótað – verkið samið til minningar um Pál Ísólfsson, fyrir vígslu nýs orgels sem sett var upp í kirkjunni það ár. Síðasta verkið, Postludium eða Eftirspil, er samið í minningu Ragnars Björnssonar, innilegt og fallegt verk. Guðný flutti öll verkin af miklu öryggi og væntumþykju og verður að segjast eins og er að þessi útúrdúr í Dómkirkjunni á hátíð sem annars fór öll fram í Hörpu, var einstaklega ánægjulegur.

Guðný Jónasdóttir hélt líka einleikstónleika, í Kaldalóni strax á eftir tónleikum Guðnýjar Einarsdóttur. Guðný er örugg á sviði og skemmtilegur performer – hún flutti fjögur verk sem öll hafa verið flutt áður, en öll þess virði að fá að hljóma oftar en einu sinni. Þetta voru verkin Alluvium eftir Huga Guðmundsson var fyrst á efnisskránni. Þetta er stórglæsilegt verk, það er eins og Hugi geti ekki samið lélega tónsmíð! frumflutt á síðasta ári, Pólypsar fyrir selló og rafhljóð eftir Halldór Smárason kallast á við aðra Pólypsa hans, fyrir fiðlu og rafhljóð og víólu og rafhljóð, og var líka skemmtilega útfært. Þá var Loftkastali eftir Helga Rafn Ingvarsson sem var frumflutt árið 2013 og reyndi mikið á tóneyra og styrk sellóleikarans, sem spilar oftast hljóma og tvígrip, en var einstaklega áhrifamikið og Guðný naut sín sérlega vel hér. Tónmál verksins kallaðist jafnvel á við sónötur og partítur Bachs á köflum. Að lokum flutti hún Solitaire eftir Hafliða Hallgrímsson frá árinu 1970 sem hefur fyrir löngu unnið sér sess í tónlistarsögunni. Það verður forvitnilegt að fylgjast með Guðnýju á næstu árum, en þess má geta að hún var nemandi í Listaháskólanum á sínum tíma.

Caput, rafsenan og Kammersveitin

Tónleikar Caput eru fastur liður á Myrkum músíkdögum. Að þessu sinni fluttu þau fimm verk eftir fimm tónskáld, undir stjórn Guðna Franzsonar: Fyrsta verkið var Dropakast eftir Sveinn Lúðvík Björnsson, fyrir slagverkseinleikara – sem var Steev van Oosterhout – og fjóra blásara. Það var í sex stuttum þáttum, mjög fallegt verk þar sem á skiptust innhverfir hlutar, oft með marimbu í forgrunni, og háværari, þar sem blásarar og háværara slagverk blönduðu sér í málið. Þetta var sérlega fallegt og vel flutt verk, sem var frumflutt við þetta tækifæri. Þvínæst var Infernal oscillation eftir Hallvarð Ásgeirsson. Hann stillir upp bassaklarinetti og sellói, mjög djúpum hljóðfærum, á móti slagverki sem er Jembey-tromma og crotales-diskar, sem liggja á mjög háu tónsviði.  Þetta var á köflum áhugavert verk og andstæður bassahljóðfæranna og málmdiskanna fallegar – en það verður að segjast eins og er að vel hefði mátt að stytta það þó nokkuð. Þráinn Hjálmarsson átti næsta verk, Influence of buildings on musical tone, frá árinu 2013, þar sem Þráinn veltir fyrir sér hljóðumhverfi torfbæjanna á Íslandi um aldir. Þráinn er upptekinn af innhverfum og smásæjum hlutum, og eins gott að sperra eyrun til að missa ekki af því sem fram fer. Verkið hefur áður verið flutt í Hörpu, á Tectonics-tónlistarhátíðinni árið 2013, og þá af Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal. Norðurljósasalurinn hentaði verkinu miklu betur – og Caput hafði stillt sér upp rétt fyrir innan dyrnar í salnum og var ekki uppi á sviðinu, þannig að mun meiri návist var við hljóðfæraleikarana en venjulega, sem vann vel með verki Þráins. Næstsíðasta verk tónleikanna var eftir Gunnar Karel Másson, While we walk, we sleep – á meðan við göngum, sofum við. Umfjöllunarefnið er svefngelgilsháttur venjulegs fólk í hversdagslífinu. Þetta er konsert fyrir túbu og sinfóníettu og hér var Nimrod Ron einleikari. Þetta var hefðbundinn þrískiptur konsert, en að öðru leyti var ekki margt hefðbundið við þetta verk. Nimrod Ron er frábær túbuleikari. Hljóðfærið hljómaði fagurlega í höndunum á honum og möguleikar þess voru vel nýttir, frá bæjardyrum leikmanns í túbuleik. Hér mátti heyra náttúrutónaraðir og fagrar hljómaraðir, en líka surg og blástur og söng blásaranna í gegnum munnstykki. Af og til brast hljómsveitin í fallega hljómræna kafla, en svo leystist úr öllu saman. Annar kaflinn var sérlega skemmtilegur, lagrænn og alvarlegur framanaf. Skemmtilegt og einstaklega vel flutt verk eftir Gunnar Karel. Síðasta verkið á tónleikum Caput var eftir Guðmundur Steinn Gunnarsson. Þetta er Erfiljóð handa Guðmundi, verk með sárt umfjöllunarefni. Það er tileinkað tveimur Guðmundum í lífi Gunnars Steins, afa hans og kornungum syni, sem báðir létust á síðasta ári. Sonur Guðmundar Steins var eineggja tvíburi, sem fæddist löngu fyrir tímann og lést skömm eftir fæðingu, en hinn lifði. Guðmundur Steinn er vel þekktur fyrir tónsmíðar sínar, þar sem hann nýtir gjarnan eftir óreglulegum hryn og óhefðbundna nótnaskrif sem birtist á tölvuskjá, þar sem litla reglu er að sjá á hlutunum. Verkið er draumkennt og iðandi, en hér var meiri spilamennska en oft áður í verkum Guðmundar – og mikil og áköf sorg í verkinu. Einstaklega áhrifamikið og vel flutt verk, lokaverkið á tónleikum Caput-hópsins, sem mun  fagna þrítugsafmæli sínu á næsta ári.

Sama kvöld voru einnig raftónleikar hátíðarinnar – en á henni eru jafnan einir tónleikar að minnsta kosti, undir þeim formerkjum. Þeir fóru fram klukkan tíu um kvöldið og á efnisskránni voru átta verk. Fyrsta verkið, eftir Steindór Grétar Kristinsson, var spuni um verk allt frá árinu 2010 fram á þennan dag og tók um fjörutíu mínútur. Þetta var því miður allt of fyrirferðarmikið á tónleikunum og gerði það að verkum að nokkur flótti brast á í hléi. Hér voru margar áhugaverðar hugmyndir á ferðinni, en verkið var hægt í gang og það hefði mátt stytta mikið og gera þennan samflutning verkanna mun hnitmiðaðri. Næst á eftir var verk sem var allt þetta, mjög hnitmiðað, fullt af skemmtilegum hugmyndum og úrvinnslan frábær. Verkið Þytur eftir Lydíu Grétarsdóttur var á fimm rásum og unnið útfrá vængjaþyt fugla. Það hljómaði í hátölurum allt í kringum salinn, sem unnið var sérstaklega með og virkaði einstaklega vel. Næst á eftir og síðasta verkið sem undirrituð heyrði, var Entropy eða óreiða eftir Pál Ívan frá Eiðum, Halldór Úlfarsson og Áka Ásgeirsson – unnið var með vídeómynd þar sem klessa nokkur var í aðalhlutverki. Tónlistin var á köflum eins konar satíra á Star Wars og var allt saman mjög fyndið og skemmtilegt. Því miður var úthaldið búið í hléi þessara tónleika, þannig að hér vantar umfjöllun um verk þeirra Kristínar Lárusdóttur, Ríkharðs H. Friðrikssonar, Jespers Pedersen og dúósins Mankan sem mynda þeir Guðmundur Vignir Karlsson og Tómas Manoury.

Nordic Affect er hópur sem verður sífellt áhugaverðari og betri. Hann skipa þær Halla Steinunn Stefánsdóttir fiðluleikari og listrænn stjórnandi, Guðrún Hrund Harðardóttir víóluleikari, Hanna Loftsdóttir sellóleikari, Guðrún Óskarsdóttir semballeikari og Georgia Browne flautuleikari. Þær hafa verið iðnar við að fá tónskáld til liðs við sig og svo var einnig á þessum tónleikum.  Verkin sem þær fluttu voru Warm life at the foot of an Iceberg eftir Miriam Tally, hljóðlátt og fallegt verk unnið undir áhrifum frá ljóði eftir eistneska ljóðskáldið Kristiinu Ehin. Point of Departure eftir Hildi Guðnadóttur, sem var eitt áhugaverðasta verk tónleikanna. Hún lætur hljóðfæraleikarana syngja og spila um leið, sem skapar ótrúlega fallegan hljóm og kannar með því tengsl hljóðfæraleikarans við hljóðfærið. Fallegt og innilegt verk. Þvínæst var verkið Impressions fyrir einleikssembal eftir Önnu Þorvaldsdóttur, þar sem Guðrún Óskarsdóttir lék á prepareraðan sembal, og lá við að erfitt væri að greina hvenær undirbúningi hljóðfærisins lauk og verkið byrjaði – sem skapaði skemmtilegt augnablik. Hún notaði litla magnara sem hún klemmdi á strengina og bolta sem skoppuðu varfærnislega eftir strengjum hljóðfærisins. Skemmtilegt og fallegt verk, og ekki síður fallegt að sjá Guðrúnu beygja sig yfir hljóðfærið við flutning þess. Því næst var verk Rachel Stott, The Dancing of the Sunbeams, Dans sólargeislanna, eina verkið sem ekki var frumflutt á þessum tónleikum. Næst var Lucid/Opaque, Þráins Hjálmarssonar fyrir strengi Nordic Affect eða Gagnsætt/ógagnsætt. Þetta var einstaklega fínlegt verk, byggt á einföldum stefjum og flutningurinn var hreinlega frábær. Verkið Spirals eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur var síðast á efnisskránni en hún hefur áður samið einleiksverk fyrir Höllu Steinunni og verkið Clockworking sem kom út á samnefndum geisladiski Nordic Affect á síðasta ári. Innri og ytri tími er umfjöllunarefni þeirra allra, og hér bættist við enn eitt blómið í hnappagöt, bæði Maríu Hildar og Nordic Affect. Tónleikarnir allir voru framúrskarandi glæsilegir og allur flutningur í fremstu röð.

Lokatónleikar Myrkra músíkdaga, voru í höndum Kammersveitar Reykjavíkur, eins og endranær. Flutt voru fjögur verk,  þrjú þeirra eftir Atla Heimi Sveinsson, sem öll voru fremur innhverf, að minnsta kosti miðað við höfundarverk Atla allt. Fjórða verkið var eftir Gunnar Andreas Kristinsson. Fyrsta verkið var Píanótríó nr. 3, Mysteries eða Leyndardómar frá árinu 2008, og var það jafnframt yngsta verk tónleikanna. Þar voru flytjendur Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari, Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari og Sigurgeir Agnarsson sellóleikari. Þar var ráðandi annarlegur og leyndardómsfullur tónn sem minnti á köflum á Pierrot Lunaire, en hér skapast hann meðal annars af stillingu hljóðfæranna og demparanotkun strengjanna. Allt var verkið undurfagurt og eins og úr öðrum heimi. Næst var Klif, einnig eftir Atla Heimi, samið árið 1969, og frumflutt á Norrænum músíkdögum árið 1970. Verkið var samið sem mótmæli við raðtækninni sem var alls ráðandi á þessum tíma, og er unnið út frá tvenns konar tónefni, veiku og mjúku þar sem smæstu tónbilin eru byggingarefnið og sterku og hröðu. Sérlega áhugavert var að heyra hversu nálægt verkið var allra nýjustu tónsmíðum. Veikari hluti verksins gæti hafa verið saminn á síðasta ári, því verkið kallast sterklega á við mörg þeirra verka sem voru flutt á hátíðinni nú, þar sem fínlegt og tilviljanakennt byggingarefni hefur verið mikið notað. Flytjendur voru Martial Nardeau flautuleikari, Einar Jóhannesson klarinettuleikari og Sigurgeir Agnarsson, sellóleikari. Næst var flutt verkið  Pattern IIB eftir Gunnar Andreas Kristinsson, frá 2004, en þetta var frumflutningur. Platan Pattern með verkum Gunnars kom út fyrir tveimur árum og var meðal annars á Kraumslistanum það ár. Pattern II, einnig frá 2004 var samið í vinnustofu með Ensemble Multifoon í Hollandi, sem hefur sérhæft sig í gamelan-hljóðfærum. Það verk var fyrir indónesísk hljóðfæri en sú útgáfa sem hér heyrðist, Pattern IIb, var útfærsla fyrir vestræn hljóðfæri – en hefur ekki verið frumflutt fyrr en nú. Verkið ber í sér hljóm hinna indónesísku hljóðfæra, og ekki ólíklegt að upprunalega útgáfan sé áhugaverðari. Þetta var skemmtilegur vinkil inn á milli verka Atla Heimis. Hljóðfærasamsetningin var sérstök, marimba, víbrófónn og annað slagverk, fiðla og bassaklarinett. Síðasta verkið á efnisskránni og á hátíðinni allri, var Plutôt blanche qu’azurée frá 1976, fremur hvítt en himinblátt. Verkið er einnig mjög innhverft og fallegt, allt að því súrrealískt og kallast vel á við hin verkin tvö eftir Atla sem flutt voru. Hér eru áheyrendur fluttir á fjarlæga eyju og fylgjast með heitum degi frá sólarupprás til sólarlags í hægu tempói. Ein af perlum Atla sem hefur fengið að hljóma nokkrum sinnum og hefur verið gefið út á plötu. Það var frumflutt í Danmörku, en var fyrst flutt hér af Kammersveitinni árið 1980. Og þannig lauk Myrkum músíkdögum að þessu sinni, með tónsmíð Atla Heimis Sveinssonar, Fremur hvítt en himinblátt.

Hátíðin var glæsileg og vel skipulögð – þótt gagnrýnisraddir heyrðust um þéttni tónleika sem varð þess valdandi að erfitt var að mæta á alla viðburði. Það hlýtur samt að vera eðlileg þróun tónlistarhátíðar af þessu tagi að ekki þurfi allir að mæta á allt. Fjölbreytileikinn er mikill og auðvelt að velja sér sína útgáfu af hátíðinni.

Hér hefur ekki verið fjallað um barnatónleika hátíðarinnar, enda börn mun betur til þess fallin að fjalla um það sem þeim er ætlað. Og ýmislegt annað varð útundan eins og gengur.

Mín helsta umkvörtun er sú að ekki hafi verið gefin út prentuð skrá yfir alla viðburði. Allar upplýsingar var að hafa á netinu, sem útheimti að allir voru sífellt með símana sína á lofti, til að átta sig á hvar og hvenær næsti viðburður yrði. En ný stjórn Tónskáldafélagsins, og ný framkvæmdastjórn Myrkra músíkdaga fór vel af stað og ég óska þeim til hamingju með þessa glæsilegu hátíð.