„Meet You Again in Midsummer Gold“

Endurteknar hugmyndir og ný gögn um íslenskan hljóðheim

Þorbjörg Daphne Hall

 

Fyrirsagnir á borð við ‘Iceland’s music scene looks set to erupt’ og ‘Iceland’s music scene is as cool as a glacier’ eru kunnugleg stef þeim sem hafa fylgst með erlendri umfjöllun um íslenska tónlist síðasta áratuginn. Þeim fylgja lýsingar á einstakri tónlistarsenu sem er óvenju stór miðað við fjölda. Hún er talin framsækin, nýjungagjörn og fjölbreytt svo nokkur lýsingarorð séu nefnd. Stundum er gerð tilraun til þess að álykta hvers vegna tónlistarlífið á Íslandi sé jafn blómlegt og raun ber vitni og hvaða eiginleikar það eru sem hafa áhrif. Ýmsir umhverfisþættir eru gjarnan nefndir til sögu, eins og einangrun landsins, lega þess á milli Evrópu og Norður Ameríku, ægilegt landslag og hinar dimmu vetrarnætur og kuldi sem knúi fólk í upptökuverin og æfingaherbergin.[1] Fræðimaðurinn Nick Prior hefur nefnt að framsetning blaðamanna á Íslandi og tónlistinni þar líkist því hvernig mannfræðingar sem uppgötva nýtt land eða jarðfræðingar sem kynnast nýrri plánetu segja frá rannsóknum sínum.[2]

Það er þó ekki eingöngu fjallað um íslenska tónlistarsenan í heild sinni útfrá umhverfisþáttum því í umfjöllun á einstökum hljómsveitum eða tónlistarmönnum má einnig finna sambærilega þræði. Hér er dæmi úr viðtali við Ólaf Arnalds sem kom út í Reykjavík Grapevine 12. febrúar 2016:

The city is covered in fresh snow, and flurries keep whitening the windy shores of Reykjavík as we head to Ólafur Arnalds’s studio. Now that we see what he sees when he’s composing, the core of this talented and prolific artist’s music suddenly seem so clear. Ólafur’s pieces have a lot in common with Iceland’s weather during winter: they often start softly, like a whisper of wind in the silence of a snowfall, before gradually expanding and releasing their emotional might with a blizzard ardour.[3]

Hér má sjá dæmigerða umfjöllun þar sem staðnum er lýst fyrst og svo er sköpunarkraftur tónskáldsins beintengdur við staðinn og umhverfið. Skilningur á tónlistinni fæst með því að skynja umhverfið. Þá er tónlist Ólafs líkt við íslenskt veðurfar.

Hliðstæða þætti má sjá í umfjöllun um hljómsveitina Sigur Rós en nefna má eftirfarandi tilvitnun sem dæmi: „Tónlist Sigur Rósar holdgerir, tjáir og laðar fram á hljóðrænan hátt […] fjarlæga og einangraða íslenska staðsetningu sína“.[4] Hugmyndin um að tónlist þeirra hafi eitthvað með jökla að gera er áberandi og er enska lýsingarorðið „glacial“ áberandi.[5] Einnig hefur verið fjallað um tónskáldið Önnu Þorvaldsdóttur á þennan hátt og hefur hún gert grein fyrir því hvernig náttúran hefur veitt henni innblástur.[6] Tónlistarkonan Björk hefur sjálf tengt tónsköpun sína við umhverfi og má nefna sem dæmi að á Homogengic sóttist hún eftir því að skapa eldfjallatakta (e. „volcanic beats“).[7] Bæði Sigur Rós og Björk hafa tengt tónsköpun sína á áberandi hátt við Ísland í tónlistarmyndböndum og heimildarmyndum en ljóst er að þessir tónlistarmenn eru ekki einir um það. Tónlistarfræðingurinn Nicola Dibben gerði viðamikla úttekt á íslenskum tónlistarmyndböndum og kom þá í ljós að um helmingur allra íslenskra tónlistarmyndbanda hafa skýra tengingu við Ísland (e. „signifiers of Iceland“) og eru náttúrutengingar sérstaklega áberandi.[8] Svo mikilvæga telja sumir fræðimenn þessa tengingu milli tónlistar og umhverfis að úr sprettur sérstök fræðigrein: ecomusicology. Brad Osborn telur að „hin eðlislægu tengsl íslenskrar menningar við íslenskt landslag“ séu til þess fallin að beita þeirri aðferðafræði (e. ecocritical reading) á íslenska tónlist og tónlistarmyndbönd og tekur hann fyrir Björk, Sigur Rós og múm.[9]

John Street segir að algengt sé að finna vísun í stað (e. place) eða staðbundna þætti í greinum og gagnrýni á dægurtónlist og hann telur að sú orðræða sé einna mest áberandi í indí rokki.[10] Hann velur sér þó að nota orðið „locality“ frekar en „place“ og setur það hugtak bæði í samhengi við umhverfisþætti og félagslega þætti, svo sem samfélag, senu og pólitík. Hinir staðbundnu félagslegu hættir er það sem Nick Prior kýs að staldra við þegar hann skoðar íslenska tónlist. Í grein sinni „It’s A Social Thing, Not A Nature Thing“ segir hann jafnframt frá því að íslenskir tónlistarmenn hafi brugðist við spurningunni um áhrif náttúru á tónlist þeirra með örvæntingu, leiða og kaldhæðni og að þeir hafi harmað að ekki væri leitað fleiri þátta til þess að skilja tónlistariðkun þeirra.[11]

Hér verður fjallað um rannsóknarverkefni sem ég stóð að og fékk styrk úr nýsköpunarsjóði námsmanna sumarið 2015. Þrír nemendur, Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir og Þorgrímur Þorsteinsson, fengu laun í þrjá mánuði til að þróa nýja aðferðafræði, halda vinnusmiðjur og vinna úr niðurstöðunum tónverk sem rannsaka hugmyndir um íslenskan hljóðheim. Meðleiðbeinandi í verkefninu var Gunnar Benediktsson fagstjóri skapandi tónlistarmiðlunar í LHÍ.[12] Í raun var kveikjan að rannsóknarverkefni síðasta sumars tilraun til þess að svara þessu kalli tónlistarmanna um að leita fleiri áhrifaþátta svo unnt væri að skilja betur hugmyndir fólks um íslenska tónlist. Með því að setja þátttakendur í óhefðbundnar aðstæður mætti kannski fá aðrar niðurstöður en þær sem fást með hefðbundnum viðtalsaðferðum en voru niðurstöður bæði í tali og tónum. Nemendurnir fengu frjálsar hendur með að þróa áfram og útfæra hugmyndir mínar um skapandi vinnusmiðju sem gæti að einhverju leyti þjónað hlutverki rýnihóps og var Gunnar þeim innan handar. Ég lagði áherslu á að smiðjurnar væru vel skrásettar þannig að hægt væri að nýta allt sem fram færi sem gögn til frekari úrvinnslu. Gríðarlegu magni af gögnum var safnað, öll samtöl voru tekin upp og skrásett og tónlistin sem samin var í smiðjunum var einnig tekin upp. Þá fengu allir þátttakendur vinnubækur sem einnig veittu innsýn inn í hugmyndir þeirra um íslenskan hljóðheim. Fjórar vinnusmiðjur voru haldnar, tvær með erlendum þátttakendum, en þar höfðu þátttakendur ekki tónlistarbakgrunn, ein með Íslendingum sem ekki voru með tónlistarbakgrunn og ein með íslensku tónlistarfólki.

Fyrstu gögnum var aflað í post-it miða æfingu en þá skrifuðu allir þátttakendur niður hugmyndir sínar um íslenska tónlist á post-it miða. Tímaramminn var mjög þröngur og því má segja að þær hugmyndir sem fram komu þar hafi verið frekar hráar og ekki úthugsaðar – einskonar „fyrstu hugdettur“ því þátttakendum gafst ekki færi á því að ritskoða sig. Alls komu fram 297 hugmyndir/hugtök/lýsingar útúr þessari fyrstu æfingu.

mynd1
Dæmi 1: Þrír post-it miðar úr fyrstu æfingunni.

Hugmyndirnar voru margbreytilegar, allt frá lýsingarorðum á borð við „evocative“, „haunting“,, „ethereal“, loftkennd, tímalaus og draumkennd, yfir í náttúrulýsingar og óræðar myndir. Segja má að mynstur hafi myndast þar sem margir einstaklingar í flestum eða öllum hópum birtu sambærilegar hugmyndir í einhverri mynd. Þetta eru hugmyndir um frumleika, tilraunamennsku, sköpunargáfu og náttúru. Vegna þessa knappa framsetningarforms var ekki alltaf auðvelt að átta sig á því hvað einstaklingarnir áttu við með miðunum sínum og voru þeir misræðir, eins og myndirnar í dæmi 1 sýna. Í næsta verkefni smiðjunnar skýrðist mikið því þá þurftu þátttakendur, í skrefum, að koma sér niður á fimm sameiginlegar hugmyndir sem einkenna íslenska tónlist og ræddu þeir því um miðana sín á milli og voru þær umræður teknar upp. Þessar umræður skýrðu t.d. að hugmyndin um „floating children“ í dæmi 1 kemur frá myndbandi Sigur Rósar fyrir lagið „Glósóli“.

Hér er dæmi um samtal milli þriggja erlendra einstaklinga þar sem þeir ræða um miðana sína og reyna að átta sig á því hvort þeir séu með einhverjar sameiginlegar hugmyndir:

B: Yeah okay, there is something about like, being different and unexpected and
interesting and original. Is there something to bring it together
C: I don’t know, I was going to say unique but I feel like, I don’t know,
how I feel about that
A: I’m having a hard time, because it is like, all, everywhere you go you would say like…„This unique culture“. It’s all very unique, but there is something particular about the way it is unique.

Þá birtist einnig ákveðin sýn á tónlistarsenuna á Íslandi í samtölunum og hér er dæmi um hvernig erlendur einstaklingur upplifir íslensku senuna sem ólíka því sem hann þekkir heiman frá:

D: Self entertaining is more the way that this isn’t, they are not really consuming
music which came from outside? Consuming a lot like Icelandic music, so Icelanders listen to Icelandic music. I don’t really listen to music where I come from, because of this island thing I guess. So they kind of entertain themselves.

Fleiri dæmi má finna þar sem erlendir einstaklingar deila hugmyndum sínum um íslenska tónlist eða tónlistarsenuna en einnig eru dæmi þar sem Íslendingarnir ræða erlendar hugmyndir um íslenska tónlist og er samtalið hér að neðan dæmi um eitt slíkt:

G: …. ja, mér datt ekkert annað í hug. Mér finnst einmitt náttúra og veðrátta vera
kannski svona svolítið líkt.
I: Já, mér finnst veðrátta eiginlega betra af því mér finnst eiginlega, af því mér finnst pínu svoldið klisja að útlendingar haldi að Íslendingar séu undir áhrifum frá
náttúrunni.
G: Nei.. veðrið klárlega, því það er alltaf einhvernveginn að veðrið spilar inn í allt, þú veist bæði ljóðin og textann og tónlistina og hrynjandann.
I: Gerir þetta svona öfgakennt líka.
G: Já, einmitt
I: Ég var svona einmitt að reyna að leggja mig fram um að skrifa ekki eitthvað týpískt sem túristar…

Hér má sjá dæmi úr vinnusmiðju tónlistarmannanna sem birtir ákveðið viðnám gegn hugmyndum sem álitnar eru klisjukenndar. Þó er rétt að benda á að sá hópur sem velti sér einna minnst uppúr náttúruhugmyndum var einmitt annar erlendu hópanna. Þar var eina náttúrutengingin „emotional landscapes“ sem er textabrot úr lagi með Björk. Þetta gefur til kynna að náttúruhugmyndir liti ekki upplifun allra erlendra einstaklinga en jafnframt sé þetta eitthvað sem Íslendingar dragi fram þó það sé ekki nema bara til þess að hafna því aftur. Þau sameiginlegu gildi sem hóparnir töluðu sig saman um í post-it vinnunni og áttu að einkenna íslenska tónlist voru eftirfarandi:

Dagur 1 – Erlendur hópur 1: Ethereal, innovative, passionate, nature og age.
Dagur 2 – Erlendur hópur 2: Community, stereotyped, emotional landscapes, open minded, flow.
Dagur 3 – Íslenskur hópur: Sjálfstæði, draumkennd, gleði, sköpunarkraftur, náttúra.
Dagur 4 – Íslenskir tónlistarmenn: Þjóðlög – fimmundasöngur, hrár&tilraunakenndur hljóðheimur, margbreytileg hljóðfæri, gleði, náttúra veldur andstæðum.

Eins og við var að búast sýndi sá hópur sem samanstóð af tónlistarmönnum með mestu tónlistarþekkinguna og var með sértækustu tónlistarorðin, s.s. fimmundasöngur og nefndi hljóðfæri. Áhugavert er að báðir íslensku hóparnir nefndu gleði sem lykilorð og af umræðum að dæma er ljóst að leiknir sem lærðir telja gleði einkenna bæði tónlistina og tónlistarlífið. Auk náttúru leggja allir hópar áherslu á einhverskonar opinn og tilraunakenndan eiginleika.

Vonast var til þess að post-it miða vinnan gæti nýst sem þankahríð fyrir texta- og lagagerð sem tók við síðar í vinnusmiðjunum þó svo að þátttakendur hafi á engan hátt verið bundnir af hugmyndum sínum, en tilmæli til þátttakenda var að semja lag sem einkenndist sem best af hugmyndum þeirra um íslenskan hljóðheim. Áhugavert er að í texta erlenda hópsins, sem hafði engar náttúruhugmyndir í post-it æfingunni, var náttúran sínálæg:

Follow me from the darkness,
fear the mountains tear,
through the fog, forget what you miss.
Meet you again, meet you again,
meet you again in midsummer gold.

Ákveðin persónugerving náttúrunnar birtist í gráti fjallsins og stemning er sköpuð með árstíðarskiptum úr myrkri vetrarins yfir í miðsumarsól. Allir textarnir byggðu á náttúrumyndum og meira að segja tónlistarmennirnir, sem gagnrýndu í samtali sínu þá klisju sem náttúran er orðin, tengdu beint við hana í textanum sínum:

Bölvuð sért þú náttúra,
nú fer ég upp í kytru þína að kúra.

Napur gustur faðmar mig,
er ég geng upp hæðina.

Þögnin grípur mig úr frjálsu falli
einmanaleikans.

Tromman keyrir áfram,
tromman keyrir áfram.

Brátt mun vora og töfrar tímans
setja spor sín á tungumálið.

Draumar falla útbyrðis,
hjartað hamast.

Komdu til mín fjallkonan fríð,
kveðumst á er vökunætur líða.

Sjáum loks til sólar,
er vökunætur líða.


Dæmi 2: Lagið sem var afrakstur allra þátttakenda úr smiðjunni.

Lagið má heyra í dæmi 2 og var það sameiginleg tónsmíð allra þátttakenda undir handleiðslu leiðtoga smiðjanna. Upptakan er frá rennsli í lok smiðjunnar en lagið var samið eftir að textavinnunni var lokið og var það síðasta verkefni smiðjunnar.

Lagið er melankólískt og draumkennt með vísunum í íslenska þjóðlagahefð sem m.a. má finna í taktskiptingunni en markvisst er unnið með síbreytilegan taktboða. Þá birtast einnig vísanir í kveðskap í textanum og í minni íslenskrar þjóðmenningar með fjallkonunni. Fyrirferðamest er þó náttúran og umhverfið sem er svið söguhetjunnar er tekst á við árstíðir og breytingar á veðráttu og vökunætur. Tónlistin endurspeglar textann á sannfærandi hátt og einmanaleikinn virðist skína í gegn þrátt fyrir fjölda hljóðfæra og söngvara. Öll lögin eiga það sameiginlegt að vera í hægu tempói og vera að einhverju leyti innhverf og einlæg. Gleðin sem báðir íslensku hóparnir lögðu svo ríka áherslu á er ekki auðsjáanleg en tilraunamennsku má skynja hjá öllum hópum.

Melankólía og innhverfa, sem má þekkja að einhverju leyti úr íslenska þjóðlagaarfinum, er áberandi og því má segja að lögin byggi á þeirri hefð sem íslensk tónlist sprettur úr. Áhugavert er að náttúruminnið, sem vinsælt hefur verið að fjalla um meðal erlendra blaðamanna, er áberandi í öllum lögunum þrátt fyrir að ekki hafi verið lögð áhersla á það í undirbúningsferlinu og meira að segja ákveðin andstaða hafi verið tekin gegn því í einum hópnum. Náttúrumyndir hafa t.d. verið áberandi í íslenskum ættjarðarlögum og sönglögum frá lokum 19. aldar en einnig má gera ráð fyrir að markaðssetning íslenskrar tónlistar og öll sú umfjöllun sem reifuð var hér að framan liti hugmyndir fólk um íslenskan hljóðheim.

Hér hefur aðeins verið fjallað um lítið brot þeirra gagna sem safnaðist í rannsóknarferlinu en það veitir þó einhverja innsýn inn í hugmyndir fólks um íslenskan hljóðheim og hversu sterk ítök þessi endurteknu stef hafa á þær hugmyndir.

 

[1] Paul Sullivan, „Iceland’s music scene is as cool as a glacier“, Music Week, 28. janúar 2006, 12.

[2] Nick Prior, „‘It’s A Social Thing, Not a Nature Thing’: Popular Music Practices in Reykjavík, Iceland“, Cultural Sociology, 14. júlí 2014, 4, doi:10.1177/1749975514534219.

[3] Hadrien Chalard, „Kiasmos’s Ólafur Arnalds Discusses His Many Lives As A Composer“, The Reykjavik Grapevine, 12. febrúar 2016, http://grapevine.is/sonarreykjavik/2016/02/12/olafur-arnalds-exploring-the-way-we-play-and-create-sounds/.

[4] Lausleg þýðing á: „Sigur Rós’s music could be said to embody, express or evoke sonically […] the remote isolation of their Icelandic location“. Tony Mitchell, „Sigur Rós’s Heima: An Icelandic Psychogeography“, Transforming Cultures eJournal 4, tbl. 1 (2009): 188, http://epress.lib.uts.edu.au/journals/index.php/TfC/article/view/1072.

[5] Prior, „‘It’s A Social Thing, Not a Nature Thing’“, 4.

[6] Ian Holubiak, „Anna Thorvaldsdottir on ‘Streaming Arhythmia’ NYC Premiere at Pioneer Works“, Classicalite, 10. febrúar 2016, http://www.classicalite.com/articles/37301/20160210/exclusive-anna-thorvaldsdottir-talks-streaming-arrhythmia-premiere-pioneer-works.htm.

[7] Christopher Walker, Inside Björk, DVD (One Little Indian, 2003).

[8] Nicola Dibben, „Nature and Nation: National Identity and Environmentalism in Icelandic Popular Music Video and Music Documentary“, Ethnomusicology Forum 18, tbl. 1 (2009): 135.

[9] Brad Osborn, „Hearing Heima: Ecological and Ecocritical Approaches to Meaning in Three Icelandic Music Videos“, í Analyzing the Music of Living Composers (and Others), ritstj. Jack Forrest Boss o.fl. (Newcastle upon Tyne: Cambridge Scholars Publishing, 2014), 220.

[10] John Street, „(Dis)located? Rhetoric, Meaning and the Locality“, í Popular Music – Style and Identity, ritstj. Will Straw o.fl. (Montréal: Ctr for Research on Canadian Cultural Industries & Inst., 1995), 255.

[11] Prior, „‘It’s A Social Thing, Not a Nature Thing’“, 5.

[12] Nemendurnir unnu sjálfstætt og markvisst að verkefninu og kann ég þeim og Gunnari bestu þakkir samstarfið.