„Þegar hjartað ræður för“

Hugleiðingar um íslenska áhuga-, alþýðu- og utangarðstónlistarmenn

Arnar Eggert Thoroddsen

 

Skömmu eftir að ég hóf störf á Morgunblaðinu sem plötugagnrýnandi (á því herrans ári 1999) og stuttu síðar sem dægurmenningarblaðamaður í fullu starfi fékk ég óslökkvandi áhuga á tónlistarfólki sem stóð utan við meginstraum þess sem var að gerast. Þegar ég gekk til liðs við blaðið voru mektarsveitir eins og Sigur Rós og múm farnar að vekja athygli erlendis, rapp- og harðkjarnabylgjur voru að bresta á og poppsveitir á borð við Sálina hans Jóns míns, Land og syni og Sóldögg voru á blússandi siglingu. Öllu þessu sinnti maður af áhuga og elju en þessi geiri sem ég nefndi í blábyrjun var öðruvísi og endalaust heillandi að mér fannst (og finnst enn). Tónlistarmennirnir sem honum tilheyrðu og heyra höfðu aldrei alveg sama háttinn á og almennt viðgekkst, syntu á móti straumi og oftast nokkuð ómeðvitaðir um það. Þetta er mikilvægt í þeirri greiningu sem hér fer á eftir og aðskilur þá frá öllum þeim aðilum og bylgjum sem ég nefndi í Sigur Rósar setningunni.

Það reyndist mikil blessun fyrir tónlistaráhugamann að fá að vinna við að sinna íslenskri dægurtónlist á skrifstofutíma og sú þekking og reynsla sem ég öðlaðist á þessum tíma (ég sagði upp störfum 2012 og hélt utan til Edinborgar í Mastersnám, síðar Doktorsnám) skilaði sér m.a. inn í þau fræðastörf sem ég sinni nú. Blessunin fólst líka í því að vegna smæðar Íslands – og sterkrar stöðu Morgunblaðsins á þeim tíma –  bárust allar útgefnar plötur á landinu inn á borð til mín. Og þær spönnuðu afar vítt svið. Þannig að, meðfram nýjum plötum frá Bubba Morthens, ungum rokksveitum og sjóðandi heitum röppurum bárust í stríðum straumum plötur hvaðanæva að landinu frá alls kyns fólki sem var að sinna tónlistarsköpun fyrst og síðast til viðbótar við „hefðbundin“ störf. Þetta var eitthvað sem það var að gera af áhuga, ánægju, þörf og líka reyndar af einhverju sem mætti kalla von (um að fara með þetta lengra og geta jafnvel sinnt tónlist af meiri alúð og jafnvel fengið greitt fyrir um leið)[1].

Vinabandið var skipað ellilífeyrisþegum sem æfði vikulega heima hjá einum þeirra og undi sér við söng og hljóðfæraslátt (og var það Jón Ólafsson, nýdanskur, sem kom plötu með bandinu út). Embla var tónlistarverkefni Haraldar Guðna Bragasonar, tónlistarkennara sem innihélt svo undarlega tónlist að Charles Ives er eins og Justin Bieber í samanburðinum. Jólaplata Gylfa Ægissonar og Gerðar Gunnarsdóttur sigldi um svipuð furðumið. Platan Falk með þungarokksgítarhetjunni Gulla Falk hljómaði eins og að týndar upptökur með Dio frá 1983 hefðu loks litið dagsins ljós. Platan „Má ég kitla þig?“, með Bíldælingnum Þórarni Hannessyni innihélt einlæga og ljúfa söngvaskáldatónlist sem hitti beint í mark, svo afdráttarlaus var hún í tilgerðarleysinu. Útgefandi var Videoval, Siglufirði. Svona má lengi telja og þarna var ég bara búinn að standa vaktina í hálft ár! Þegar ég rýndi í eina plötuna af þessu taginu, Rokk og Rómantík með Stefáni Óskarssyni frá Raufarhöfn, hafði ég verið að velta þessari tónlist þónokkuð fyrir mér og hóf því dóminn svo:

Það er til ákveðinn undirflokkur í íslenskri tónlistarmenningu sem til þessa hefur verið undanskilin fræðilegum skilgreiningum. Menn tala um kvennarokk og Skagapopp en sú stefna sem ég er að tala um er enn þá vita nafnlaus. Engu að síður tilheyra henni, eins og flestum stílbrigðum tónlistar, ákveðin sameiginleg einkenni og reglur sem iðkendur hennar fylgja. Þessi tónlist er oftast fremur einföld, þrjú grip í mesta lagi og útsetningar og annað slíkt skraut í lágmarki. Oft beita flytjendurnir, sem eru vanalega fullorðnir karlmenn á miðjum aldri, fyrir sig afar vafasömum nálgunum við lögin, hljóðfæraleikur oft í „hallærislegri“ kantinum og iðuleg á skjön við það sem er að gerast í dægurlagaheimi nútímans.

Síðar í dóminum gerði ég tilraun til að gefa stefnunni nafn, heiti sem hefur festst við hana og er þónokkuð brúkað af tónlistaráhugamönnum:

En það einkenni sem er tvímælalaust mest heillandi við þennan undirflokk er sú staðreynd að flytjendurnir eru alltaf fullkomlega einlægir í því sem þeir eru að gera.Hinir kaldranalegu myndu kannski kalla þetta „plebbapopp“ og það má gæla við nafngiftir eins og „skrifborðsskúfupopp“ eða „alþýðupopp“. Það færi þó kannski best á að kalla þetta einfaldlega “hamfarapopp” til heiðurs plötunni sem ruddi brautina, frumburð Gunnars Jökuls, en það má líka færa rök fyrir því að flytjendur fari ákveðnum hamförum á þessum geislaplötum sínum.

Ég lýk svo dómi með fagurfræðilegum vangaveltum um umslagið og tónlistina og hvet fólk til að dýfa tám í þessa stórundarlegu „stefnu“:

Umslagshönnun er eins og við mátti búast hreinasta hörmung. Ég er fyrir lifandi löngu hættur að láta mér bregða við þetta og nokkuð viss um að ég yrði vonsvikinn ef umslagshönnunin væri á annan veg. Svona á að gera þetta í hamfarapoppinu.Þessi geislaplata Stefáns er eins raunveruleg, einlæg og ástríðufull og framast er unnt og ég mæli eindregið með því að áhugafólk um athyglisverða tónlist kynni sér hamfarapoppið. Þetta er langt frá því að vera eitthvað gamanmál eða eins og Stefán segir: „Ég syng með stolti og lem minn gítar með von um þökk frá guði síðar.“[2]

Viðlíka plötur rötuðu til mín með reglubundnum hætti næstu árin og ég punktaði það hjá mér í hausnum að gera einhvern tíma eitthvað við þetta, jafnvel að skrifa bók (titillinn „Kynlegir kvistir“ veltist m.a. um). Ég var ástfanginn af þeim lítilmagna og blindu elju sem einkenndi þessa listamenn, þeirri tilfinningu að þetta fólk væri að sinna og skapa tónlist fyrir hana eina og ekkert annað þó að vanefni væru oft það eina sem það hafði úr að moða. Klaufagangur og vanþekking á málum eins og umslagshönnun, upptökum og dreifingarferli jók enn frekar á þessa rómantík mína ef eitthvað var. Hugmyndin um hinn fallega ófullkomleika þótti mér endalaust spennandi.

Rúmum áratug síðar, þegar ég var loksins kominn í meiranámið sem var alltaf á planinu (ég kláraði B.A. í félagsfræði við Háskóla Íslands árið 1999[3]) lagði ég upp með að skrifa doktorsritgerð um þessa tónlist. Nálgunina við hana, fólkið og veruleika þess. Félagsfræðileg greining á þessum geira sem er þó varla geiri. Ritgerðin átti svo eftir að taka stakkaskiptum í ritunarferli, fókusinn víkkaði, og mínir elskuðuðu amatörar eru nú ekki nema lítill hluti af upplegginu en voru í brennidepli í fyrstu viðræðum við tilsjónarmanninn, prófessor Simon Frith, sem deilir með mér þessum áhuga. En ég lenti líka í ófyrirséðum vandræðum, snemma í ferlinu, ófyrirséðum hreinlega vegna reynsluleysis. Það sem ég hafði álitið fremur skýra skiptingu, að það væru til áhugamenn annars vegar og svo atvinnumenn hins vegar, hélt engan veginn.  Tónlistariðkun dvelur á risastóru, gráu svæði og samsetningar á því hvernig fólk nálgast tónlistarstarfssemi eru svo gott sem endalausar að tölu. Það er hægt að sinna tónlist í hálfu starfi, heilu starfi, 17% starfi; það er hægt að gera slíkt af áhuga en líka ekki, sumir eru sprúðlandi hressir í vinnunni á meðan aðrir gera þetta af þörf og hundleiðist jafnvel á meðan það er verið að plokka gítarinn. Ó, hversu barnalegur var ég.

Ég setti trú mína á mátt hina mörgu og ég leitaði á náðir Fésbókarinnar, þar sem maður er sæmilega tengdur tónlistaráhugamönnum auk þess að hafa aðgang að „grúbbum“ sem hafa tónlist að áhugasviði. Ég spurði:

Sælir vinir. Ég er að skrifa smá texta um íslenska tónlistaramatöra/áhugamenn. Skilgreiningar eins og „outsider music“/hamfarapopp, naívismi, költ eiga við. Og þó að menn eins og Gylfi Ægisson hafi nær eingöngu lifibrauð af tónlist (er semsagt professional frekar en amateur) þá er hann hérna inni, einkanlega vegna óvenjulegheitana. Ég held að þið fattið hvert ég er að fara. Ég er að baktryggja mig fyrir gleymsku. Hér eru nöfn til að koma heilafrumunum í gang, öll hjálp vel þegin: Helgi og hljóðfæraleikararnir, Sigríður Níelsdóttir, Hallbjörn Hjartarson, læknapoppið allt, rafvirkinn sem „hreinsaði úr skúffunni“ og gaf loksins út plötu…

Ekki stóð á svörum og nöfnin og pælingar miklar hrúguðust inn. Seinna í þræðinum bætti ég við:

En ég er að hugsa þetta víðar en bara þetta skrítipopp. Roðlaust og beinlaust og læknarnir, sem gefa flestir út frekar hefðbundna tónlist. Margir af einyrkjunum hafa líka gefið plötur með ósköp venjulegu þriggja gripa poppi, í sæmilegum umslögum og allt það. En þetta þarf að standa utan meginstraumsins tel ég – og eins og ég segi, hugtakið “amateurism” er vítt hvað tónlistina varðar og það koma hlutir eins og „semi-professional“ inn í þetta líka. Þetta er allt í smíðum og öll umræða vel þegin. Og ég er ekki að leggja út frá „amateur“ sem einhverju sem á það þýða fúsk eða vangeta. „Amateur“ þýðir „sá sem elskar“ og ég er að stýra inn á aðkomuna að sjálfri sköpuninni, sem er oft mjög sönn, einlæg, ástríðufull og heilbrigð í þessum tilfellum á meðan að atvinnumennirnir, sumir, eru oft á mörkum þess að vera kaldir iðnaðarmenn. Það er einn vinkillinn a.m.k.[4]

Þessar Fésbókarumræður voru afar upplýsandi um margt hvað þessa tónlist varðar. T.d. þetta orð, „amatör“, hefur nokkuð aðra merkingu og hlaðnari hér á landi en t.d. í Bretlandi. Að vera „amateur musician“ er eitthvað sem fólk þar gengst við á sama hátt og það segist vera frímerkjasafnari. Að syngja í kór á kvöldin o.s.frv. Á Íslandi er amatör oft tengt við fúsk, að þú sért ekki nógu góður í einhverju, en sá mælikvarði liggur ekki til grundvallar í mínum rannsóknum. Þó að Eric Clapton kunni að spila á gítarinn, er hann ekki endilega „betri“ en Geirmundur Valtýsson þegar kemur að því að meta hluti fagurfræðilega (já, ég hafði þetta dæmi viljandi frekar súrt!). Fleiri pælingar þyrluðust upp. Langskólagenginn eða ekki og hvað þýðir það? Eiga menn heimtingu á að vera teknir alvarlega vegna prófskírteina, eiga menn heimtingu á að vera lofsungnir sem meira „alvöru“ af því að þeir hafa til að bera krúttlega vankunnáttu? Mínir eigin fordómar fóru líka að blasa við, þar sem áhugamaðurinn var orðinn að ljósbera heiðarlegrar sköpunar en fiðluleikarinn í Sinfóníuhljómsveitinni viljalaust verkfæri í leit að launaseðli. Þessu er hæglega hægt að snúa við eðlilega, fiðluleikarinn ber ljósið á meðan áhugamaðurinn er í ruglinu. Dýpri skilningur hérna megin hefur orðið til smátt og smátt, einfaldlega vegna marineringarinnar í þessum pælingum undanfarin misseri.

Annað sem kom upp úr dúrnum er þá í raun siðferðisleg spurning. Er maður að hafa gaman af þessum einyrkjum og utangarðstónlistarmönnum af torkennilegum ástæðum? Er maður með öðrum orðum að brosa í kampinn yfir þessum vesalingum, hlæja að þeim fremur en að gleðjast yfir fegurð þess sem þeir hafa fram að bera? Umræða á þessum nótum fór fram um daginn í netheimum varðandi nefnda plötu Gunnars Jökuls en hún myndi fljúga inn í hefti af „Incredibly Strange Music“. Í umræðunum var því m.a. haldið fram að það væri beinlínis rangt að hafa gaman af plötunni, það væri vanvirðing við mann sem var ekki heill á geðsmunum er hann gerði plötuna. Þetta er áhugavert og án þess að ég fari lengra út í það hér trúi ég þessu: Það er hægt að bera virðingu fyrir svona tónlistarsköpun, njóta hennar og gleðjast yfir henni þó að maður brosi út í annað um leið. Ein af mínum uppáhalds hljómsveitum er Iron Maiden, sem er hlægileg um margt en aðdáun mín er um leið sönn og rík. Þetta tvennt, alvara og gaman, getur farið saman. Og vanvirðing er það ekki.

Orðið „meðvitund“ hefur líka verið mér hugleikið í þessu sambandi. Að einhverju leyti skilur það ástand á milli þessara einyrkja og annara. Það er eins og ákveðin fjarlægð frá regluverki nútíma poppiðnaðar undirstingi margt af því besta sem hefur komið úr ranni „amatörana“ sem hér eru til umfjöllunar. Heilnæmt skeytingarleysi eða náttúruleg „ómeðvitund“ um hvað er í gangi, hvað er flott og hvað ekki. Ef við förum svo í hreina fagurfræði hvað þessa tónlist varðar kemur setningin „it’s so bad, it’s good“ upp í hugann. Margt af því sem ég hef heyrt frá þessum tónlistarmönnum er ægifagurt og heillandi en sumt líka gjörsamlega út úr kú; skrítið, fáránlegt og á mörkum þess hryllilega. Og aftur komum við að meðvitundinni (og þetta er reyndar önnur umræða, hversu meðvitaðir og/eða blindir eru listamenn, amatörar eða ekki, í garð eigin verka). Það er vert að líta til tilfinningaraka Davíðs Hume sem á og við hina siðlegu umræðu í málsgreininni á undan. Í A Treatise of Human Nature talar Hume um að fegurð listaverka sé fyrst og síðast í augum sjáenda, þeir ákvarði gildi þeirra og sá útgangspunktur er mikilvægur, svo hægt sé að skilja dálæti fólks á hlutum sem birtast kannski flestum sem ljótir og leiðinlegir en hafa eitthvað við sig í augum þeirra. Hume talar um tilfinningu, fremur en hugsun, sem stýrir því hvaða áhrif listaverkin hafa á okkur. Við erum í raun varnarlaus fyrir áhrifunum. Gæsahúð er gæsahúð.

Sumarið 2015 sótti ég ráðstefnu í Portúgal (Keep It Simple, Make It Fast! (KISMIF) Crossing – Borders of Underground Music Scenes) og hélt þá tölu um þetta efni. Viðtökur voru góðar, fólk sperrti upp eyru og glennti augu, brosti og hló en dýfði sér einnig í bólakaf í pælingar um þessi mál í spurningatímanum. Reyndar hef ég ekki upplifað jafn sterk viðbrögð við nokkrum fyrirlestri sem ég hef haldið um tónlistarleg efni. Þannig að … bókin, greinin, eitthvað … verður vonandi til í fyllingu tímans. Hjarta mitt slær a.m.k. enn nokkuð ört fyrir þessu og ræður för…

 

Eftirfarandi fræðibækur og –greinar hafa m.a. veitt mér innblástur hvað þetta umfjöllunarefni varðar: 

 • Behr, Adam. The Real “Crossroads” of live music – the conventions of performance at open mic nights in Edinburgh. Í Social Semiotics. Vol. 22, Issue 5, 2012. P. 559.
 • Cohen, Sarah. Rock Culture in Liverpool: Popular Music in the Making (1991).
 • DeNora, Tia. Music in Everyday Life. (2000).
 • Finnegan, Ruth. The Hidden Musicians: Music-Making in an English Town (1989).
 • Frith, Simon. “What is Bad Music?” (1994). Í Bad Music: The Music We Love to Hate (2004).
 • Hennoine, Antoine – Music industry and music lovers, beyond Benjamin. The return of the amateur. Í Journal on media culture, Vol. 2, No. July 1999.
 • Killick, Andrew. Holicipation: Prolegomenon to an Ethnography of Solitary Music-Making (2006). Í Ethnomusicology Forum 15(2):273-299.
 • Prior, Nick. “The Rise of the New Amateurs: Popular Music, Digital Technology and the Fate of Cultural Production”. Í Handbook of Cultural Sociology, 2010, pp. 398-407.
 • Stebbins, Robert A. “MusicAmong Friends: The Social Networks of Amateur Musicians“. Í Art and Society: Readings in the Sociology of the arts, 1989.

 

Nokkur skotheld tóndæmi[5]:

 • Gunnar Jökull – Hamfarir (1998)

Plata hans, Hamfarir, gaf stefnunni hamfarapopp nafn sitt. Stórundarleg tónlist, tekin upp við bágan kost og með „hallæris“-skemmtarahljóði. Gamlir aðdáendur harma plötuna, enda gekk Gunnar ekki heill til skógar þegar platan var gerð (sem útskýrir vafalítið furðulegheitin). Verkið varð þó að „költ“-plötu hjá ákveðinni kynslóð en stundum er deilt umhvort hreindlega sé siðlegt að hafa gaman af þessu, er verið að hlæja að honum eða með?

 • Vinabandið – Heima í stofu (2000)

Dásamleg plata þar sem nokkrir rosknir vinir syngja íslensk alþýðulög með sínu nefi.

 • Sigríður Níelsdóttir (Amma lo-fi)

Algerasti áhuga- og alþýðutónlistarmaður sem fram hefur komið í seinni tíð. Gaf út rösklega sjötíu kasssettu og geisladiska sem innihalda létt og leikandi popp, oft með næfum og krúttlegum brag, en allt tók hún upp í stofunni sinni með hljómborði, segulbandstæki og ýmsum aukahlutum. Sigríður náði hylli fólks með látlausri, innilegri nærveru sinni  og kvikmynd var gerð um hana auk þess em stórsveit Sigríðar Níelsdóttur, skipuð þungavigtarfólki í íslenskri jaðartónlist, lék tónlist hennar á tónleikum.

 • Pósthúsið í Tuva

Læknirinn Hlynur Þorsteinsson stýrir þessu bandi sem hefur gefið út tugi geisladiska (tónlistariðkun lækna er reyndar efni í aðra grein). Dásamlega skringilegt popprokk, sem m.a. má heyra á plötunni Orðlaus (2004).

 • Guðjón Rúdolf

Guðjón Rúdolf á rætur í pönksenu landsins og hefur unnið að plötum með tónskáldinu Þorkatli Atlasyni. Plöturnar eru algerlega einstakar, erfitt er að lýsa þeim með orðum, en þær eru þó ekki kengruglaðar, meira sérvitringslegar og sæmilega innan ramma eðlilegheita. Eins og segir í einni orðabókaþýðingunni á enska orðinu eccentric: „unconventional and slightly strange“. Minimania (2003) og Þjóðsöngur (2005) eru málið.

 • Helgi og hljóðfæraleikararnir

Stórkostlegt bræðra- og frændaband sem tikkar í öll þau rómantísku box sem höfundur hefur verið að lýsa í greininni. Grallaralegt þjóðlagapönk en sveitin gerir út fyrir norðan, nánar tiltekið frá Kristnesi. Leiðtoginn; búfræðingurinn, bóndinn, hönnuðurinn og alþýðuskáldið Helgi Þórsson er mikill karakter og eftir sveitina liggja yfir tug platna (en tvær týndust víst í upptökuferli og hafa því aldrei komið út).

 • Þórarinn Hannesson

Einföld og einlæg kassagítartónlist en Þórarinn er ágætt dæmi um frekar hefðbundna og algenga nálgun í þessum fræðum. Karlmaður (það eru eiginlega alltaf karlmenn) á miðjum aldri á uppsöfnuð lög á lager og gefur út með tilstuðlan vina og kunningja, gefur sjálfur út og hannar jafnvel umslag, stundum af vanefnum. Oft finnast svona plötur á bensínstöðvum úti á landi.

 • Hallbjörn Hjartarson

Kúreki norðursins rak einstakan feril og gaf út „kántrí“-plötur sem voru það þó varla. Síðustu plöturnar hans eru forvitnilegri og skrítnari en fyrstu sprettirnir, sjá t.d. Kántrý 10 – Kötturinn Búlli (2003)

 • Spaðar

„Gáfaðasta“ hljómsveit landsins, gamlir skólabræður og flestir kennarar, blaðamenn og rithöfundar í dag (Guðmundur Andri er m.a. í sveitinni). Sveitin er rekin eins og spilaklúbbur og er tilefni til gefandi vinahittings. Útgáfa og böll eru reglulega og „Úr segulbandasafninu 1983 – 2003“ (2003) gefur ágæta mynd af bandinu.

 • Leoncie

Hér erum við komin ansi langt að mörkum sturlunarinnar en Leoncie, indverska prinsessan, hefur kætt landann með ótrúlegum plötum og myndböndum lengi vel. Lagatitlar eins og „Radio rapist“, „Pole club song“, „ Ást á pöbbnum-Kópavogi“ og „Rocky“ segja sitt.

 • Roðlaus og beinlaust

Áhöfnin á Kleifarbergi ÓF-2 frá Ólafsfirði, leidd af Birni Vali Gíslasyni, hefur gefið út nokkra hljómdiska, þar sem finna má „skátaleg og einföld lög, svona dægiljúft, skandinavískt ryksugurokk“ svo ég vitni í sjálfan mig í dómi um plötu þeirra Brælublús frá 2004. Alþýðutónlist eins og hún gerist best.

 

[1] Sumir voru reyndar með stjörnur í augum, heimsfrægð var „örugglega“ á næsta leyti, en þetta einkenndi oft og iðulega ungar rokksveitir, skipaðar karlmönnum, sem voru ekki alveg með fæturna á jörðinni. En þetta er önnur saga og liggur utan við fókus þessarar greinar.

[2] Morgunblaðið, 27. apríl, 2000.

[3] Ritgerðin var fjölmiðlafræðileg greining á Simpsonsfjölskyldunni þannig að dægurmenning var þegar farin að standa mér nærri fræðilega.

[4] Þessar umræður fóru fram á Fésbókarveggnum mínum í september, 2013.

[5] Sumt illfáanlegt en bókasöfn luma á mörgu af þessu. Þjónvarpið (youtube) og aðrar net-tónlistarveitur búa líka yfir dæmum.