Um höfunda

ÞRÆÐIR – tímarit um tónlist

1 tbl. 2016 – höfundar

 

Arnar Eggert Thoroddsen

Arnar Eggert Thoroddsen (f. 18. febrúar 1974) lauk Mastersprófi í tónlistarfræðum við Edinborgarháskóla árið 2013 og vinnur nú að doktorsritgerð við sama skóla undir handleiðslu prófessors Simon Frith þar sem efnistökin er íslensk dægurtónlistarmenning. Arnar kennir nú félagsfræði og dægurtónlistarfræði við Háskóla Íslands og víðar en auk þess á hann langan feril að baki sem tónlistarblaðamaður og eftir hann liggja m.a. þrjár bækur um íslenska dægurtónlist. Hann er þá virkur sem álitsgjafi um þau efni í útvarpi sem sjónvarpi og hefur snert á margvíslegum flötum þeirrar eðlu alþýðulistar.

Árni Heimir Ingólfsson

Árni Heimir Ingólfsson er listrænn ráðgjafi Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gestaprófessor við LHÍ. Hann hefur gegnt rannsóknarstöðum við háskólana í Oxford og Boston og ritað greinar m.a. í Andvara, Griplu, Skírni og Sögu. Bók hans, Jón Leifs – Líf í tónum, kom út árið 2009 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Síðar á þessu ári kemur út bók hans, Saga tónlistarinnar. Árni Heimir hefur einnig stýrt tónlistarflutningi á þremur hljómdiskum sem allir innihalda lög úr fornum íslenskum söngbókum: Tvísöngur (2004), Melódía (2007) og Hymnodia sacra (2010).

Atli Ingólfsson

Atli Ingólfsson nam tónsmíðar í Reykjavík, Mílanó og París og bjó lengi í Bologna og starfaði við list sína.  Hann býr nú í Reykjavík, semur tónlist og kennir jafnframt hljómfræði og tónsmíðar.  Verk hans eru mörg og af öllu tagi.

Bára Gísladóttir

Bára Gísladóttir er tónskáld og kontrabassaleikari sem stundar meistaranám við Konunglega danska tónlistarkonservatoríið í tónsmíðum undir leiðsögn Jeppe Just Christensen og Niels Rosing-Schow. Þar áður nam hún tónsmíðar undir handleiðslu Gabriele Manca við Verdí-akademíuna í Mílano og í Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Hróðmars I. Sigurbjörnssonar og Þuríðar Jónsdóttur. Bára hefur í námi sínu lagt stund á greiningarvinnu og hlaut m.a. annars Rannís-styrk ásamt þremur samnemendun fyrir verkefninu „Rannsónir á íslenskri tónlist 20. og 21. aldar: Þorkell Sigurbjörnsson – kammer og einleiksverk“ undir handleiðslu Hróðmars I. Sigurbjörnssonar og Þorbjargar Daphne Hall.

Berglind María Tómasdóttir

Berglind María Tómasdóttir er flautuleikari og tónskáld. Í verkum sínum leitast hún við að kanna sjálfsmyndir, erkitýpur og tónlist sem samfélagslegt fyrirbæri. Berglind stundaði nám í flautuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og Konunglega danska konservatoríið. Árið 2014 lauk hún doktorsprófi í flutningi samtímatónlistar frá Kaliforníuháskóla í San Diego. Berglind er aðjúnkt og fagstjóri við Listaháskóla Íslands.

Einar Torfi Einarsson

Einar Torfi Einarsson er tónskáld og aðjúnkt við tónlistardeild Listaháskóla Íslands. Hann nam tónsmíðar í Reykjavík, Amsterdam, Graz, og lauk doktorsprófi í tónsmíðum frá háskólanum í Huddersfield undir leiðsögn Aaron Cassidy. Hann hefur einnig sótt meistaranámskeið og einkatíma hjá Salvatore Sciarrino, Brian Ferneyhough, Beat Furrer og Peter Ablinger. 2013-2014 gegndi hann rannsóknarstöðu við Orpheus Institute í Belgíu. Tónlist hans hefur verið flutt á tónlistarhátíðum um alla Evrópu og unnið til verðlauna í Hollandi og Austurríki. Undanfarið hafa verk hans lagt áherslu á tilraunakennda nótnaritun þar sem mörk tónlistar og myndlistar eru könnuð.

Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson

Hróðmar I. Sigurbjörnsson lauk prófi í tónsmíðum frá Tónfræðadeild Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1984 þar sem tónsmíðakennarar hans voru Þorkell Sigurbjörnsson og Atli Heimir Sveinsson. Hann stundaði framhaldsnám í tónsmíðum hjá hollenska tónskáldinu Joep Straesser við Konservatoríið í Utrecht í Hollandi þaðan sem hann lauk prófi 1988. Frá haustinu 1988 hefur hann unnið sem tónskáld og kennari í tónsmíðum og tónfræðum. Hann gegnir nú stöðu lektors og fagstjóra í tónsmíðum og tónfræðum við tónlistardeild LHÍ. Hróðmar hefur samið verk fyrir einleikshljóðfæri, ýmsar kammersamsetningar, kóra, hljómsveitarverk, konserta og óperu auk tónlistar fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir.

Ingibjörg Eyþórsdóttir

Ingibjörg Eyþórsdóttir hefur verið stundakennari við tónlistardeild LHÍ undanfarin ár og kennt þar íslenska tónlistarsögu 20. aldar. Hún lauk prófi frá sömu deild árið 2005 með tónlistarfræði og söng sem aðalgreinar. Hún er með MA-gráðu frá Háskóla Íslands þar sem hún hefur annars vegar lagt áherslu á miðaldabókmenntir og hins vegar á tónlistararfinn frá því um siðaskipti og hefur verið þátttakandi í rannsóknarverkefni um Kvæðabók Sr. Ólafs Jónssonar á Söndum á vegum Stofnunar Árna Magnússonar. Nú er Ingibjörg doktorsnemi við Háskóla Íslands. Ingibjörg var lengi starfsmaður Rásar 1 Ríkisútvarpsins þar sem tónlist 20. og 21. aldar var aðalumfjöllunarefni hennar.

Pétur Jónasson

Pétur Jónasson hefur kennt klassískan gítarleik við LHÍ frá árinu 2004. Hann hefur haldið  fjölda einleikstónleika á öllum Norðurlöndunum, Bretlandi, meginlandi Evrópu, Norður-Ameríku, Eyjaálfu og Austurlöndum fjær og leikið inn á geisladiska, m.a. verk sem samin hafa verið sérstaklega fyrir hann. Pétur er meðlimur í CAPUT-hópnum og hefur starfað sem listrænn stjórnandi á nútímatónlistarhátíðunum Norrænum músíkdögum, Myrkum músíkdögum og IMMERSION. Árið 2015 lauk hann MSc gráðu með láði í “Performance Science” frá Royal College of Music í London.

Tania Lisboa

Tania Lisboa lauk MA gráðu í sellóleik frá City University í London og PhD gráðu frá Sheffield University, en doktorsritgerð hennar fjallaði um samhengið milli tónlistarlegs skilnings sellónemenda og fjölþættra nálgana í námi og kennslu. Árið 2008 var henni veitt rannsóknastaða við Performance Science deildina í Royal College of Music í London, en rannsóknir hennar þar beinast aðallega að hreyfingum í tónlist og aðferðum við æfingar. Samhliða rannsóknum er hún mikilvirkur sellóleikari, og hefur sem slík komið fram víða í Evrópu, Asíu og Norður- og Suður-Ameríku. Tania er fædd í Brasilíu, en þar stundaði hún einnig nám í píanóleik.

Úlfar Ingi Haraldsson

Úlfar Ingi Haraldsson PhD  (f. 1966), hóf fyrst að fást við tónlist í kringum tólf ára aldurinn norður í Skagafirði. Lauk burtfararprófi í tónsmíðum og tónfræðum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1990. Stundaði þvínæst framhaldsnám við University of California, San Diego á árunum 1992-99 og lauk þaðan doktorsprófi í tónsmíðum og tónfræðum árið 2000.  Úlfar hefur á liðnum áratugum starfað sem tónskáld, bassaleikari, stjórnandi og tónlistarkennari í Bandaríkjunum og á Íslandi. Eftir hann liggja um sextíu tónverk af ýmsum stærðum og gerðum sem víða hafa verið flutt bæði á Íslandi og erlendis.

Þorbjörg Daphne Hall

Þorbjörg Daphne Hall er fagstjóri fræða og lektor í tónlistarfræðum við tónlistardeild Listaháskóla Íslands þar sem hún hefur starfað s.l. sex ár. Hún stundar doktorsnám við Háskólann í Liverpool undir leiðsögn próf. Sara Cohen. Viðfangsefni hennar í náminu snýr að hugmyndum um íslenskan hljóðheim í dægurtónlist 21. aldar þar sem sjálfsmynd þjóðar, ímyndir, landslag og náttúra skipa lykilhlutverk. Þorbjörg hefur gefið út greinar og haldið fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum um íslenska tónlist, tónlist og þjóðerniskennd, kvikmyndina Heima eftir Sigur Rós og um tónlist í Kristjaníu í Kaupmannahöfn.

Þráinn Hjálmarsson

Þráinn Hjálmarsson er tónskáld og stundakennari við myndlistar- og tónlistardeild Listaháskóla Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Í tónlist sinni leitar Þráinn eftir því að beina sjónum hlustandans að fjölbreyttri og ólíkri virkni hljóðs í ljóðrænum heimi tónlistar. Tónlist Þráins hefur verið leikin víða um heim af ýmsum tilefnum af hópum og flytjendum á borð við Basel Sinfonietta (CH), BBC Scottish Symphony Orchestra (SCO), Sinfóníuhljómsveit Íslands, Uusinta ensemble (FI), Nordic Affect (IS), Athelas sinfonietta (DK), Ensemble Adapter (DE/IS), Kammersveit Reykjavíkur auk annarra. Þráinn fer með listræna stjórn tónleikaraðarinnar Hljóðön, í Hafnarborg, tónleikaröð tileinkaðri samtímatónlist, sem og listræna ráðgjöf og kórstjórn Íslenska hljóðljóðakórsins (Nýló-kórsins).